Skýrt brot á stjórnarskrá - framsal dómsvalds
6.12.2009 | 22:20
Miklar umræður hafa um það verið bæði á Alþingi og í fjölmiðlum hvort samþykkt Icesave samninganna sé mögulega brot á stjórnarskrá Íslands. Ýmis atriði hafa þar verið nefnd og er ekki ætlun mín að tíunda þau öll hér heldur benda á aðeins eitt athyglisvert atriði sem stjórnarandstaðan ræddi nýlega á Alþingi. Samkvæmt stjórnarskrá er ekki heimilt að framselja dómsvald, sem er hluti af fullveldi okkar. Með fyrirvörum sem samþykktir voru á Alþingi í ágúst s.l. var tryggt að íslensk lög yrðu höfð til hliðsjónar við mat á því hvort íslenski tryggingarsjóðurinn eigi forgangsrétt í eignir Landsbankans á móti greiðslu lágmarkstryggingarverndar, 20.887 evrum. Landsbankinn var jú íslenskt félag og um hann gilda því íslensk lög. Upphaflegu samningarnir fela í sér jafnan rétt íslenska, breska og hollenska ríkisins hvað þetta varðar.
Þær breytingar á áður samþykktum fyrirvörum sem ríkistjórnin vill nú samþykkja fela í sér að torsótt gæti orðið að fá þessar forgangskröfur viðurkenndar. Þar kveður á um að forgangur samkvæmt íslenskum lögum verði eingöngu viðurkenndur að því gefnu að niðurstaða íslenskra dómsstóla verði í samræmi við álit EFTA dómstólsins. Hvað þýðir þetta? Jú, einmitt það að dómsvaldið er ekki lengur í höndum íslenskra dómsstóla heldur EFTA! Ekki verður annað séð en að um sé að ræða beint framsal dómsvalds og hlýtur þetta því að teljast skýrt brot á stjórnarskrá!Í samningunum sjálfum er vissulega aðeins talað um ráðgefandi álit en með fyrirliggjandi viðaukabreytingum eru sett skilyrði! Það hlýtur hver maður að sjá að ekki er lengur um ráðgefandi álit að ræða! Vitleysan í þessu máli er endalaus og er þetta aðeins eitt dæmi af mörgum um hvernig farið er í kringum hlutina.
Í tilraun sinni til að réttlæta þetta bendir ríkisstjórnin svo á að hér sé um sambærilegan hlut að ræða og í ákvæði EES samningsins sem við erum nú þegar aðili að. Það er alrangt! EES samningurinn felur í sér heimild EFTA lands til að leita álits EFTA dómstólsins er varðar ágreiningsefni er lúta að samningnum. Engin skylda er sett á þjóðir hvað þetta varðar og er álit dómstólsins aðeins ráðgefandi. Við undirbúning viðræðna vegna aðildar EFTA ríkjanna að EES samningnum var um það rætt hvort álit dómstólsins ætti að vera bindandi. Sú umræða leiddi í ljós að slíkt myndi líklega brjóta í bága við stjórnarskrár EFTA ríkjanna og því ákveðið að það yrði aðeins ráðgefandi. Það er því augljóst að röksemdafærslur ríkisstjórnarinnar standast ekki nánari skoðun í þessu máli fremur en mörgum öðrum!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Okkar heilaga ritning"stjórnarskráin"hefur verið fótum troðið hið óendanlega.
Ég tel að ríkistjórnir landsins,síðari tíma,hafi allar gert sig seka,um að brjóta gagnvart stjórnarskránni.Forustumenn þeirra segja,ég geri það sem ég vil.Ef það verður brot er á stjórnarskránni,þá breytum við henni.
Ingvi Rúnar Einarsson, 7.12.2009 kl. 08:58
Takk fyrir afar skilmerkilega útlistun. Af alkunnri auðmýkt leyfi ég mér að hvetja þig til þess að tjá þig oftar og um fleiri málaflokka.
Baldur Hermannsson, 10.12.2009 kl. 23:46
Sammála síðasta ræðumanni.
Axel Þór Kolbeinsson, 23.12.2009 kl. 09:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.