Mesti hræðsluáróðurinn í Icesave málinu frá upphafi!

Þeir sem eru fylgjandi Icesave samningum, samninganefndarmenn og aðrir, hafa látið í veðri vaka að versta mögulega niðurstaða úr dómsmáli gæti orðið sú að Íslendingar yrðu dæmdir til að ábyrgjast innistæður Breta og Hollendinga að fullu vegna jafnræðisreglunnar.

Í því samhengi hafa menn hrætt fólk með því að það myndi þýða mörg hundruð milljarða hærri greiðslu en núverandi samningar fela í sér. Þetta er svo mikil fjarstæða og einhver sá mesti hræðsluáróður sem finna má í öllu Icesave málinu og mun ég hér útskýra það nánar.

Í fyrsta lagi er þessi niðurstaða dómsmáls mjög ólíkleg. ESA hefur nú þegar staðfest með áliti sínu frá 15. desember 2010 að nauðsynlegt hafi verið fyrir íslensk stjórnvöld að tryggja innistæður hér umfram lögbundna innistæðutrygginu til að tryggja öryggi almennings á Íslandi. Með þessu áliti sínu vísar ESA á bug kvörtunum þess eðlis að íslenskum stjórnvöldum hefði nægt að tryggja innistæður hér aðeins í samræmi við það lágmark sem ESB lög kveða á um. Það hefur lítið farið fyrir því að talsmenn samninganna hafi kynnt þetta álit. Þeir hafa lagt meiri áherslu á fyrra álit ESA, sem sent var hálfu ári áður, þar sem fram kemur að um mögulega mismunum hafi verið að ræða. Rétt er að taka skýrt fram að í þessu fyrra áliti, er varðar mismunun, er einungis vísað í að hún felist í því að ekki hafi verið greidd lágmarksinnistæðutryggingin til Breta og Hollendinga, en hvergi minnst á að íslenska ríkinu hafi borið að ábyrgjast innistæður þeirra að fullu.

Í öðru lagi, ef svo ólíklega færi að niðurstaðan yrði sú að íslenska ríkið yrði dæmt til að ábyrgjast allar innistæður, þá myndi fást fullur forgangur í endurheimtur þrotabús Landsbankans. Í stað þess að fá ca 51% af endurheimtum úr þrotabúinu á móti Bretum og Hollendingum, eins og Icesave samningarnir gera ráð fyrir, myndum við fá 100%. Þetta þýðir að í stað þess að fá ca 51% af um 1.175 milljörðum (sem er núverandi mat á þrotabúinu), eða ca 600 milljarða, fengjum við alla 1.175 milljarðana eða tæplega 600 milljarða í viðbót. Fylgjendur samningsins tala um mörg hundruð milljarða auka kostnað við synjun, í tilfelli verstu mögulegu niðurstöðu dómsmáls, en gleyma að segja frá mörg hundruð milljarða endurheimtum sem myndu fást á móti. Þetta útskýrir þann mikla mun sem er á útreikningum mögulegrar niðurstöðu frá nei og já hliðinni. Hvers vegna fylgjendur samningsins kjósa að taka ekki tillit til viðbótar, mörg hundruð milljarða, endurheimtna er alveg augljóst. Það er til þess að valda ótta hjá almenningi við að segja NEI. Þetta er í raun afar einfalt reiknidæmi sem þarf hvorki viðskiptafræðing, hagfræðing eða stærðfræðing til að leysa. Það ætti því að vera einfalt að setja þetta fram á skýran hátt án þess að gleyma svona mikilvægum forsendum!

Svona málflutningur er til skammar og dæmir sig sjálfur!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ojæja, & já, & hafiði það !

Mar alveg zér þig fyrir zér hoppa niður af eldhúzkollinum & ztappa niður afturloppunni af krafti !

Steingrímur Helgason, 5.4.2011 kl. 23:24

2 Smámynd: Esther Anna Jóhannsdóttir

... einmitt - og með klærnar úti ;-)

Esther Anna Jóhannsdóttir, 5.4.2011 kl. 23:28

3 Smámynd: Jón Sveinsson

Svona verður alltaf þegar valdníðingar og landráðslíður stjórna  alt á yfirborðinu sega stjórnvöld (LANDRÁÐSLIÐURINN)  hvað er á yfirborðinu annað en lygar hjá stjórnvöldum allir þingmenn eru meðsekir ekki láta þeir sem þykjast vera á móti sega okkur frá það er að sega sannleikan nei hirða bara laun sín og gefa okkur fingurinn.

NEI ER EINA SVARIÐ ÞANN 9.

Jón Sveinsson, 6.4.2011 kl. 09:51

4 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Hvernig sem já-sinnar eða nei-sinnar velta Icesavemálinum fyrir sér og ræða „dómstólaleiðina“ eða aðra mögulega niðurstöðu þessa máls þá er í raun aðeins ein leið til að meta það.

Hver sá sem ætlar að kjósa ætti að setja sig í spor þess sem málið snýst um. Það er hinn venjulegi sparifjáreigandi.

Allir sen setja fé á bankareikning ætlast til þess að peningarnir séu til staðar þegar þeim hentar að taka féð út aftur. Bankar verða að vera öruggar stofnanir, jafnvel þótt þeir hafi verið einkavinavæddir.

Þetta er svo augljóst að það ætti varla að þurfa að benda á þetta - en í öllum látunum kringum þetta mál þá er eins og að sumir hafi gleymt þessari grundvallarreglu.

Í samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir á mörgum sviðum þá gilda reglur sem banna mismunun eftir þjóðerni eða búsetu. Banki má ekki mismuna Englendingi sem býr í Reykjavík og geymir sitt sparifé í útibúi bankans í Reykjavík gagnvart Englendingi sem býr í London og geymir sitt fé í útibúi sama banka í London. Sama gildir um Íslendinga sem búa á Íslandi eða í Englandi. Allir innistæðueigendurnir skulu eiga sömu réttindi og sofa því sælir í sínum heimabæ.

Þetta er grundvallarreglan í Icesavemálinu. Nú er ljóst að neiti Íslendingar að ganga frá málinu með fyrirliggjandi samningi þá eru þeir að segja að þessi regla sé ekki í gildi. Það má mismuna.

Sömu aðilar virðast aðallega byggja afstöðu sína á því að það sé verið að kúga þá til að borga „ólögvarðar einkaskuldir óreiðumanna“. Jafnaðarreglan sem samskipti Íslendinga við aðildarþjóðir EES-samningsins byggðist á er skyndilega orðin „kúgun“ (fyrrum nýlendukúgara, útlendinga etc.).

Íslenskt innistæðutryggingakerfi brást, bæði gangvart íslenskum innistæðueigendum á Íslandi og innistæðueigendum Landsbankans erlendis. Íslenska ríkið hljóp undir bagga og tryggði innistæður hér heima. Og nú er búið að semja um að íslenska standi með sama hætti að baki tryggingasjóðnum gagnvart erlendum innistæðueigendum. Sem betur fer þá duga eiginir þrotabús Landsbankans næstum fyrir allri greiðslunni.

Segjum já!

Hjálmtýr V Heiðdal, 6.4.2011 kl. 09:56

5 Smámynd: Birgir Rúnar Sæmundsson

NEI og Aftur NEI !

http://birgrunar.blog.is/blog/birgrunar/entry/1156725/

http://www.fscs.org.uk/what-we-cover/products/investments/eea-top-ups/

Íslenskir Skattborgarar bera enga ábyrgð á Icesave og Böggunum !

Birgir Rúnar Sæmundsson, 6.4.2011 kl. 14:26

6 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Hver sá sem ætlar að kjósa ætti að setja sig í spor þess sem málið snýst um. Það er hinn venjulegi sparifjáreigandi.

Hver sá sem leggur fé sitt inn á banka veit það núna að samkvæmt reglugerðum þá er hæsta mögulega endurgreiðsla 20.887 evrur, við almenningur vorum bara látin halda að það væri full ábyrgð, svona er þetta bara.

Í samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir á mörgum sviðum þá gilda reglur sem banna mismunun eftir þjóðerni eða búsetu.

Engum var mismunað eftir þjóðerni eða búsetu, það var mismunað eftir því hvar innistæðan lá, ekki hver átti hana eða hvar hann bjó. Bretar hafa sjálfir gert þetta að mismuna eftir útibúi svo það er komið fordæmi sem við erum bara að fylgja, einnig er réttur hvers lands að verja sitt eigið hagkerfi hærri heldur en jafnaðarreglan.

Sömu aðilar virðast aðallega byggja afstöðu sína á því að það sé verið að kúga þá til að borga „ólögvarðar einkaskuldir óreiðumanna“. Jafnaðarreglan sem samskipti Íslendinga við aðildarþjóðir EES-samningsins byggðist á er skyndilega orðin „kúgun“ (fyrrum nýlendukúgara, útlendinga etc.).

Ef krafan er ólögvarin og það er beitt hótunum til að fá samþykki (Ekkert esb, engin lán, engir samningar etc etc) þá er þetta ekkert annað en kúgun, hvernig skilgreinir þú annars kúgun?

Íslenskt innistæðutryggingakerfi brást, bæði gangvart íslenskum innistæðueigendum á Íslandi og innistæðueigendum Landsbankans erlendis. Íslenska ríkið hljóp undir bagga og tryggði innistæður hér heima.

Landsbankinn var einnig með innistæðutryggingu erlendis, svo ef innistæðutryggingakerfið hér heima er ekki nógu öflugt til að standast undir kostnaði við endurgreiðslur þá ber hinu kerfinu að bæta við því sem upp á vantar.

Íslenska innistæðutryggingakerfi var fullkomnlega löglegt, það var nýlega búið að yfirfara það stuttu fyrir hrun af ESB og ekkert var út á það að setja, svo er tekið skýrt fram í lögum um innistæðutryggingakerfi að ríkisábyrgð sé ekki leyfileg ef búið er að koma á fót innistæðutryggingakerfi.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 6.4.2011 kl. 14:48

7 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Þetta var ágæt umfjöllun, Esther Anna. Verður hugsanlega til þess að einhverjir já-arar kúvendi og kjósi rétt.

Skemmilegt einnig svar Halldórs Björgvins við bullinu úr Hjálmþý.

Hvað mig varðar þá er ég búinn að heyra nóg af tölum og "ísköldu mati" og hef ákveðið að láta hvorugt hafa áhrif á mig. Ég ætla að láta réttlætiskenndina ráða. Ég ætla að kjósa með hjartanu. Ég segi NEI!

Emil Örn Kristjánsson, 6.4.2011 kl. 15:28

8 identicon

Góðan dag. Ég er ein af þeim sem er óákveðin. Getið þið bloggarar sagt mér hvort einhver hefur reiknað út þann kostnað sem hlýst af dómstólaleiðinni, þá meina ég ferlið sem slíkt (allir lögfræðingarinr, dómararnir og sérfræðingarnir sem þar koma við sögu) ef við segjum nei og þá hver á að borga þær krónur, evrur eða pund??

Ásdís Baldvinsd. (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 16:23

9 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Getið þið bloggarar sagt mér hvort einhver hefur reiknað út þann kostnað sem hlýst af dómstólaleiðinni, þá meina ég ferlið sem slíkt (allir lögfræðingarinr, dómararnir og sérfræðingarnir sem þar koma við sögu) ef við segjum nei og þá hver á að borga þær krónur, evrur eða pund??

Það er erfitt að reikna út þann heildarkostnað, það fer alveg eftir því hvernig málin fara, og hverjir verða fengnir til að fara með þau, en ég stórefa að sá kostnaður fari að hlaupa á tugi ef ekki hundruði milljarða eins og kostar að samþykkja Icesave 3.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 6.4.2011 kl. 17:10

10 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Ásdís, hér hefur þú færi á að kynna þér nánar hvernig Reimar Pétursson sér fyrir sér dómsstólaleiðina og fylgir hann þessu með sterkum rökum. http://vimeo.com/21929491

Halldór Björgvin Jóhannsson, 6.4.2011 kl. 17:12

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta eru í raun álit um sitthvort efnið.  Þú ættir etv. að segja nei-sinnum frá fyrra álitinu.  Þar samþykkir ESA það meginatriði neyðarlaganna að setja innstæður í forgang.  þeir taka fram þar, að ekki sé fjallað um eða tekin afstaða í því áliti til mismununarfaktorsins  (discrimination) sem í athöfnum Íslenska Ríkisins síðan fólst í útfærslunni.  þ.e.  sagt fokk jú við útlendinga:

,,Also, the present decision does not deal with questions of discrimination between domestic and foreign depositors.(...) Consequently, the present decision does not express any views on the legality, under EEA law, of differences in treatment between deposit accounts located within Iceland on the one hand and outside Iceland on the other hand."

Nú, varandi síðara álitið er þú vísar í pistlinum,  þar sem öllu því er haldið hefur verið fram af 2-4 lagaséffum hé uppi er hafnað algjörlega í öllum liðum og síðan lagt fram í meginlínum hvernig evrópulaga og regluverk virkar, og að þar er lítið minnst á umframlágmarkið (þó það sé hálfpartinn ýjað að þvæi óbeint þó) þá er það álit aðeins um lágmarkið.  Snýr að lágmarkinu oþal. er ekkert fjallað um hugsanlega ábyrgð umfram lágmarkið.

það er ekkert sem segir að ESA muni ekki útvíkka þetta í framhaldinu og taka fyrir umframspurninguna.

Bretar gætu alveg verið með case til að fá fram ábyrgð Ísland umfram lágmarkið og útfyrir almennar innstæður.  Eg held það.  Ef þeir vildu.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.4.2011 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband