Færsluflokkur: Evrópumál

Hótanir Utanríkisráðherra Hollands og vanþekking hans á ESB tilskipunum

Það þarf varla að koma nokkrum á óvart að okkur sé hótað töf á inngöngu í ESB á meðan við samþykkjum ekki ábyrgð ríkisins á Icesave samningum. Þrátt fyrir að vera ekki mikill ESB aðildarsinni, eins og staðan er í dag (kannski seinna, eða ekki?), er ég farin að hugsa sem svo að umsókn um aðild hafi ekki verið svo slæm á þessu stigi. Hún mun kannski gera þær hótanir sem átt hafa sér stað enn sýnilegri. 

Hjá ESB þarf samhljóða samþykki allra aðildarríkja til að samþykkja aðild nýrra ríkja. Þannig getur jafnvel eitt ríki af 27 synjað nýju ríki um aðild og komið í veg fyrir hana. Þvingunaraðgerðir Hollendinga og Breta eru því dæmdar til að heppnast og munu örugglega bera árangur gagnvart þeim sem vilja tafarlausa aðild Íslands að ESB. Þrátt fyrir að ýmsir stjórnmálamenn þvertaki fyrir að þessi tvö málefni séu tengd (ESB aðild og Icesave) og að þeir séu að "þrýsta" frumvarpi um Icesavesamninga í gegn um alþingi, á mettíma til að komast í ESB, ætti flestum að vera orðið ljóst að þessi tvö málefni eru tengd! Aðilar sem eru fyrir okkar hönd reiðubúnir að greiða þann fórnarkostnað sem ríkisábyrgð á Icesave samningum felur í sér, fyrir ESB aðild, eru ekki hæfir til að sitja á alþingi!

Það er athyglisvert að Utanríkisráðherra Hollands segir að samþykki muni flýta fyrir aðild Íslands að ESB og sýna fram á að Íslendingar taki tilskipanir frá ESB alvarlega. Í þessari fullyrðingu felst bæði hótun og vanþekking! Hótunina þekkjum við en vanþekkingin er ekki síður alvarleg, sér í lagi í ljósi stöðu hans. Við Íslendingar, líkt og aðrar þjóðir ESB, höfum innleitt allar tilskipanir frá ESB er varða fjármálastarfsemi því við erum aðilar að EES samningnum. Fjármálaeftirlitið sá síðan til þess að þeim væri fylgt. Þessar reglur voru hins vegar verulega gallaðar og eru tryggingarsjóðir um alla Evrópu verulega undirfjármagnaðir, ekki bara á Íslandi. Það er ekkert í neinum tilskipunum ESB sem kveður á um ríkisábyrgð á innistæðum, við hrun fjármálastofnana, ef innistæður tryggingasjóða (sem eru fjármagnaðir af fjármálastofnunum) duga ekki fyrir innistæðum.  Þessir sjóðir eru álitnir sjálfstæðar stofnanir (skv ESB tilskipunum), án ríkisábyrgðar, til að koma í veg fyrir brot á samkeppnislögum. Ef eitt tiltekið ríki myndi gefa út ríkisábyrgð myndi það veita þarlendum skráðum fjármálastofnunum samkeppnisforskot... sem telst lögbrot. Þetta er viðurkennd staðreynd!

Endurskoðun á lögum um fjármálastarfsemi og tryggingarsjóði hefur staðið til í mörg ár hjá ESB þar sem aðilar vissu um galla í regluverkinu en henni var aldrei hrint í framkvæmd. Í dag er slík endurskoðun í gangi og eru hugmyndir á lofti um að gera tryggingarsjóði meira sameiginlega fyrir allt svæðið, þ.e. sameiginleg ábyrgð allra ríkja.

Varðandi ábyrgð íslenskra skattgreiðenda á að greiða innistæður Breta og Hollendinga: Við skulum ekki gleyma því að hollenskir og breskir innistæðueigendur hafa greitt fjármagnstekjuskatt af sínum innistæðum til breska og hollenska ríkisins undanfarin ár en ekki hins íslenska!


mbl.is Þrýst á Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gordon Brown í samningaviðræðum við AGS vegna Icesave!

Mér fannst heldur merkilegt að heyra í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að Bretar væru í samningaviðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hversu fljótt við Íslendingar gætum greitt skuldir okkar vegna Icesave. Mér er spurn hvort við Íslendingar komum hvergi að þeim viðræðum eða hvort AGS og Bretar séu í sameiningu að „sjóða saman“ nýjar þvingunaraðferðir sem beita má gegn okkur? Mér finnst reyndar löngu orðið tímabært að almenningur verði upplýstur um stöðu mála í samningaviðræðum vegna Icesave og hvaða málflutningur hefur átt sér stað fyrir okkar hönd. Í því sambandi vantar einna helst svar við eftirfarandi:

Hafa íslensk stjórnvöld, fyrir okkar hönd, viðurkennt að greiða innistæður breskra sparifjáreigenda, umfram það sem til var í tryggingarsjóði, þrátt fyrir að engin löggjöf kveði á um slíka ábyrgð?

Það er ekki og má ekki verða hlutverk íslenskra skattgreiðenda að gjalda fyrir starfsemi einstakra fjármálafyrirtækja sem fóru stórum í skjóli gallaðs regluverks ESB. Bretar hafa hafnað þeirri réttmætu beiðni Íslendinga að leyst verði úr ágreiningi í málinu fyrir dómstólum. Það virðist augljóst að þeir ætla sér þess í stað að misnota aðstöðu sína til að ná fram þvingunaraðgerðum í gegn um AGS og ESB. Fram hefur komið að ESB hafi óttast að réttaróvissa í máli Íslendinga og Breta gæti leitt til frekara áhlaups á Evrópska fjármálakerfið. Það virðist því augljóst að ESB sé það einnig kappsmál að Íslendingar gangist við ábyrgð á innistæðum þrátt fyrir að ekki finnist ákvæði um slíkt í löggjöf ESB. Fyrir vikið má gera ráð fyrir að ESB sé og verði viljugur þátttakandi í þvingunaraðgerðum. Við megum ekki og getum ekki sem þjóð tekið að okkur það hlutverk að bjarga fjármálakerfi Evrópu með því að skuldbinda komandi kynslóðir.


11 Firrur Jóns Baldvins um Evruland

Jón Baldvin ritaði grein sem birtist í Fréttablaðinu þann 1. maí s.l. undir yfirskriftinni „11 firrur um Evruland“. Í henni leitast hann við að leiðrétta ranghugmyndir sem hann telur að andstæðingar ESB aðildar hafi um sambandið. Óháð skoðunum á aðild tel ég rétt að skoða réttmæti fullyrðinga hans. Þrátt fyrir ágæti Jóns á ýmsum sviðum finnst mér þessi málflutningur hans oft bera vott um takmarkaðan skilning á málefnum sem hann fjallar um og á ESB. Ég sjálf hefði búist við öðru af okkar fyrrum sendiherra. Ég vil taka fram að ég flokkast ekki sem mótfallin né fylgjandi ESB aðild þó ég hallist fremur í átt að því að vera mótfallin um þessar mundir. Ég kýs þó að halda upplýsingagáttum mínum opnum fyrir mismunandi skoðunum og kynna mér málefnið á gagnrýnin hátt. Málefnið er flókið og margar staðreyndir sem þarf að kynna sér áður en hægt er að fullmóta skoðun. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að fá viðurkenndar ákveðnar undanþágur til að aðild verði ákjósanleg og að til að fá góða niðurstöðu úr samningaviðræðum þurfi að skapa okkur ákjósanlegri aðstæður en nú eru og velja rétta aðila til að leiða viðræður. Nánar rökstutt síðar.

"1.       Fullveldi fyrir bí. Evrópusambandið er samtök sjálfstæðra þjóða og fullvalda ríkja. Sérstaða Evrópusambandsins er sú að aðildarríki láta af hendi hluta af fullveldi sínu, en fá í staðinn hlutdeild í samþjóðlegu valdi sambandsins. Þetta þýðir meðal annars að smáþjóðir eru áhrifameiri um eigin hagsmuni innan sambandsins en utan.

Eystrasaltsþjóðirnar eru gott dæmi um það. Þær endurheimtu sjálfstæði sitt formlega árið 1991, eftir að hafa verið innlimaðar með hervaldi í sovéska nýlenduveldið í tæplega hálfa öld. Fyrsta verk þeirra að fengnu sjálfstæði var að ganga í Evrópusambandið. Það gerðu þær að sjálfsögðu ekki til þess að farga nýfengnu fullveldi, heldur til að festa það í sessi og tryggja það fyrir utanaðkomandi ásælni. Þær gengu í ESB til þess að styrkja stöðu sína sem sjálfstæðar þjóðir. Það er fásinna að halda því fram að frændþjóðir okkar á Norður­löndum, sem eru í ESB, séu ekki lengur sjálfstæðar þjóðir. Með aðild okkar að EES-samningnum erum við nú þegar aðilar að ESB að u.þ.b. tveimur/þriðju hlutum, án þess að hafa áhrif á þá löggjöf, sem við fáum senda í pósti.Það sæmir varla fullvalda þjóð. Með inngöngu í ESB mundum við styrkja fullveldi okkar en ekki veikja."

Hér er innihaldið m.a. að með ESB aðild værum við að styrkja fullveldi okkar með því að gefa hluta af því frá okkur og fá í staðinn hlutdeild í samþjóðlegu valdi sambandsins. Ef slíkt reyndist rétt þyrfti þetta samþjóðlega vald að tryggja okkur í það minnsta samsvarandi möguleika til að hafa áhrif á eigin málefni og ef við hefðum fullt fullveldi. Slíkt er ekki raunin því atkvæðavægi ríkja hjá ESB tekur mið af íbúafjölda og setning löggjafa hjá sambandinu byggir á atkvæðagreiðslu. Ísland myndi fá 3 atkvæði af 348 í ráðherraráði og 5 af 785 í þinginu. Það verður því að teljast rangt að smáþjóðir séu áhrifameiri um eigin hagsmuni innan sambandsins en utan. Hins vegar má færa rök fyrir því að aðild sé stundum hagsmunamál fyrir ríki. Mikill munur er á þessu tvennu. Eitt helsta hagsmunamál ríkja er þátttaka í hinum innri markaði sambandsins. Innri markaðurinn er viðskiptasvæði án innri landamæra og viðskiptahindrana þar sem tryggt er frjálst flæði vara, þjónustu, fólks og fjármagns. Staða Íslands, Noregs og Liechtenstein er sérstök þar sem þessi ríki eru nú þegar þátttakendur í þessum innri markaði, í gegn um EES samninginn. Það er því erfitt að rökstyðja, við núverandi aðstæður, að það sé okkur hagsmunamál að fá fulla aðild. Margir ESB sinnar hafa fullyrt að við séum í dag áhrifalaus um löggjöf innan ESB er varðar þennan innri markað og að eingöngu með fullri aðild getum við haft áhrif þar á, líkt og Jón gerir hér. Þetta er mikill misskilningur og algjörlega rangt. Það er rétt að án fullrar aðildar höfum við ekki atkvæðarétt um nýja löggjöf. M.v. það litla atkvæðavægi sem við fengjum ætti öllum að vera ljóst að áhrif okkar á þessum vettvangi yrðu lítil. Staðan í dag er hins vegar sú að vegna aðildar okkar að EES samningnum höfum við rétt til setu og til starfa í sameiginlegum nefndum Evrópusambandsins og EES/EFTA ríkjanna þriggja sem aðild eiga að samningnum, getum haft áhrif á framþróun hans og þar með á frumvörp til löggjafar er hann varðar. Í sameiginlegri EES þingmannanefnd hafa EES/EFTA ríkin (Ísland, Noregur og Liechtenstein)  jafnmarga fulltrúa og Evrópusambandið og hlutfallslega getum við því haft mun meiri áhrif á þessum vettvangi en með atkvæðagreiðslu. Ég tel því fullvíst að áhrifamáttur okkar er ekki fólginn í atkvæðagreiðslu heldur miklu fremur í störfum nefnda er áhrif hafa á lagafrumvörp. Við ættum hins vegar að spyrja að því hvort þessi réttur okkar hafi verið nægjanlega vel nýttur og hvort störf þeirra aðila er þar sitja fyrir okkar hönd (ef einhverjir) hafi verið fullnægjandi.

"2. Ekki núna – kannski seinna. Það tekur tíma – nokkur ár allt í allt – að semja um aðild og upptöku evru, breyta stjórnarskrá og leggja aðildar­samning undir þjóðar­atkvæði. Einmitt þess vegna töpum við á því að draga málið á langinn. Einmitt þess vegna þurfum við að byrja samnings­ferlið strax. Og þetta er nauðsynlegt, af því að traustur gjaldmiðill og lægri vextir á lánum eru forsenda þess, að við getum unnið okkur út úr kreppunni. Til þess þurfum við að semja við Evrópusambandið núna, ekki seinna. Af því að Evrópusambandsaðild er partur af lausninni á bráðavandanum, en ekki framtíðarmúsík, sem við dönsum eftir einhvern tíma seinna." 

Evrópusambandið hefur margoft fullyrt á opinberum vettvangi að innganga Íslands í sambandið muni taka mun skemmri tíma en venjulegt er vegna aðildar okkar að EES samningnum. Ég tel því ekki óvarlegt að áætla að þær fullyrðingar eigi við rök að styðjast og sé ekki ástæðu til að flýta sér í þessum málum. Ég tel einnig varasamt að fara í samningaviðræður við núverandi aðstæður og að láta aðila er telja Evrópusambandsaðild einu mögulegu lausnina á öllum okkar vanda (Samfylkingarfólk) leiða þær viðræður. Aðilar sem ganga til samningaviðræðna með því hugarfari að engir aðrir valkostir séu í stöðunni eru vísir til að gangast við annars óásættanlegum samningi. Ég tel því farsælla að útfæra aðra möguleika einnig áður en gengið er til viðræðna. Ég er ennfremur þeirrar skoðunar að hæfilegt hlutfall fólks með efasemdir um aðild þurfi að taka þátt í viðræðum til að gagnrýnin hugsun verði einnig með í för. Varðandi lægri vexti þá er ESB aðild ekki eina leiðin að þeim. Við stýrum sjálf okkar peningamálastefnu og getum því framkvæmt vaxtalækkanir sjálf. 

"3. Evrópusambandið veitir engar varanlegar undanþágur. Með öðrum orðum, það er ekki hægt að semja við Evrópusambandið. Þetta er ósatt. Allar þjóðir (og þær eru núna 27) sem hafa samið um aðild, hafa fengið viðurkenningu á brýnustu þjóðarhagsmunum í aðildarsamningum. Það er sjálf aðferðafræði Evrópusambandsins að leysa ágreiningsmál með samningum, á grundvelli laga og réttar.
Aðildarsamningar hafa sömu þjóðréttarlegu stöðu og sjálfur stofnsáttmálinn. Það þýðir að þeim verður ekki breytt – þeir fela í sér varanlega lausn – nema við samþykkjum breytinguna sjálf. Dæmi um sérlausnir með vísan til sérstakra aðstæðna eru mýmörg. Gott dæmi er sérlausn fyrir heimskautalandbúnað Finna og Svía norðan 62° breiddargráðu. Með EES-samningnum hefur Ísland þegar yfirtekið um tvo/þriðju hluta af regluverki ESB. Meðal samningsmarkmiða er að fá viðurkenningu á sérlausn fyrir íslenskt fiskveiðistjórnunarsvæði."

Það er rétt að margar þjóðir hafa fengið skráðar einhverjar undanþágur í aðildarsamninga og að m.a. var samþykktur sérstakur réttur til aukinna styrkveitinga af hálfu ákveðinna ríkja til eigin landbúnaðar. Þetta á við um ríki norðan 62. breiddargráðu sem flokkast sem harðbýl landsvæði. Líklega myndi allt Ísland flokkast sem slíkt og hafa áhyggjur af landbúnaði því jafnvel verið tilefnislausar. Rétt er þó að benda á að þessi undanþága er EKKI varanleg heldur tímabundin og var hún nýlega framlengd til ársins 2011. Hvað gerist í framtíðinni mun tíminn leiða í ljós. Hins vegar hefur margoft komið fram að ekki er vilji hjá Evrópusambandinu til að viðurkenna sérlausnir fyrir Ísland á sviði sjávarútvegs. Þrátt fyrir að formlegar samningaviðræður um aðild hafi ekki átt sér stað hefur sérstaða okkar varðandi sjávarútveg margoft verið til umræðu og góðum rökum beitt fyrir okkar hönd sem ekki hafa skilað vilja til undanþágna. Má þar til dæmis benda á ræðu fyrrum utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, í Berlín árið 2002. Þar benti hann á að sameiginleg sjávarútvegsstefna tæki mið af legu sambandsins eins og það var í upphafi þegar um samliggjandi fiskimið var að ræða og fleiri en eitt ríki stunduðu veiðar úr sömu stofnum. Sameiginlega auðlindastefnu teldi hann geta átt við þegar um sameiginlegar auðlindir væri að ræða. Hann kvað hins vegar höfunda sjávarútvegsstefnunnar ekki hafa gert ráð fyrir þeim möguleika að til væru fiskistofnar sem tilheyrðu einungis einu landi og að ekki væri raunhæft að krefjast þess að ríki aðlöguðu sig stefnu sem ekki hefði tekið tillit til málefna þeirra. Hann benti að auki á að sjávarútvegsfræðingar um allan heim, þar með talið fræðingar Evrópusambandsins, viðurkenndu almennt að flestir fiskistofnar við Ísland væru innan íslensku landhelginnar. Fyrir vikið væri ekki hægt að líta á þessa stofna sem sameiginlega auðlind fremur en finnsk tré eða breska olíu. Ennfremur benti hann á þessa undanþágu á sviði landbúnaðar sem átti sér stað við stækkun sambandsins og spurði hvort ekki teldist eðlilegt að útfæra slíkar undanþágur á sviði sjávarútvegs. Þrátt fyrir góðan málflutning hans og röksemdarfærslur hefur ekki verið vilji til að skilja sérstöðu okkar. Ég spyr: „Hvað gefur ástæðu til að álykta að ESB hafi skipt um skoðun og að við getum auðveldlega samið um þessa hluti“?

"4. Þeir stela af okkur auðlindunum. Þetta er skröksaga. Aðildarþjóðir Evrópusambandsins ráða sjálfar yfir auðlindum sínum. Bretar ráða sjálfir yfir sinni Norðursjávarolíu; Þjóðverjar yfir sínum kolanámum í Ruhr, Spánverjar yfir sínum ólívulundum og Finnar yfir sínum skógar­lendum. Með sama hætti munum við, Íslendingar, ráða yfir okkar eigin orkulindum í fallvötnum og jarðvarma. Okkur er í sjálfsvald sett, hvernig við högum eignaréttarskipan á auðlindum – hvort þær eru í einka- eða þjóðareign."

Er ekki ástæða til að óttast þetta? Hér er kannski nærtækast að minna á þá umfjöllun sem átti sér stað nýlega varðandi Lissabon sáttmálann, sem er í samþykktarferli. Samkvæmt honum mun ESB hafa lagasetningarvald sem gerir því kleift að yfirtaka orkuauðlindir einstakra aðildarríkja til að tryggja heildarhagsmuni. Er mögulegt að skortur á auðlindum í einhverjum ríkjum verði til þess að yfirteknar verði auðlindir annarra? Þetta ætti a.m.k. að hringja viðvörunarbjöllum. Þrátt fyrir að meginreglan sé sú að þjóðir ráði sjálfar sínum auðlindum er kannski gott að lesa smáa letrið í öllum sáttmálum sambandsins. Erfitt er að fullyrða að um full og ótakmörkuð yfirráð yfir auðlindum verði að ræða, við allar aðstæður, fyrr en það hefur verið gert. Það má einnig benda á að það sem er í dag verður ekki endilega á morgun því löggjöf ESB er stöðugt að taka breytingum og mun atkvæðavægi okkar ekki duga til að fella málefni sem eru okkur í óhag. Rétt er einnig að benda á að úthlutun heimilda til veiða úr fiskisstofnum okkar, sem er ein af auðlindum okkar, mun færast til ESB. Hvernig er hægt að líta á þá staðreynd öðruvísi en að þeir öðlist yfirráð yfir þeirri auðlind? 

"5. Við glötum yfirráðum yfir fiskimiðunum. Það er óhætt að fullyrða að það verður engin breyting á úthlutun veiðiheimilda innan íslenskrar lögsögu við aðild að Evrópusambandinu. Grundvallarreglur um sögulegan rétt og hlutfallslegan stöðugleika þýða að aðrar þjóðir öðlast engan rétt til veiða innan íslensku lögsögunnar. Eina breytingin verður sú, að útlendingar munu öðlast rétt til að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Rétt eins og Samherji t.d. hefur fjárfest í sjávarútvegsfyrirtækjum innan ESB. (70 prósent af tekjum Samherja koma utan Íslands).
Vegna samkeppnis­yfir­burða íslensks sjávarútvegs er þetta kostur en ekki galli. Þetta er til dæmis leið til að losa sjávarútvegsfyrirtækin út úr skuldum, sem þau eru sokkin í vegna kvótabrasks. Hverri þjóð er heimilt að setja nánari reglur til að tryggja löndun og fullvinnslu afla í heimahöfn, þannig að tekjur skili sér til heimalandsins."
 

Það er EKKI hægt að fullyrða að engar breytingar verði á úthlutun aflaheimilda! Það er einnig rangt að þjóðir geti með reglugerðum tryggt löndun og fullvinnslu afla í heimahöfn! Meginreglan í sjávarútvegsstefnu sambandsins er jafn aðgangur að öllum fiskimiðum og öllum stofnum. Seinna var samþykkt reglan um hlutfallslegan stöðugleika sem setur reglunni um jafnan aðgang ákveðin takmörk. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika gerir ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda byggi á sögulegum veiðihefðum úr ákveðnum stofnum og á ákveðnum fiskimiðum. Þessi regla tryggir okkur í dag gegn úthlutun veiðiheimilda til annarra ríkja úr stofnum í okkar landhelgi þar sem nær enginn önnur þjóð hefur sögulega veiðihefð þar. Þessari reglu má hins vegar breyta hvenær sem er með samþykki aukins meirihluta í ráðherraráði ESB og eftir stendur meginreglan um jafnan aðgang. Okkar helsta hagsmunamál yrði því að tryggja okkur gegn breytingum á þessari reglu. Um þessar mundir er sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins í gagngerri endurskoðun, m.a. reglan um hlutfallslegan stöðugleika, og munu breytingatillögur ekki liggja fyrir fyrr en 2010 og væntanlega taka gildi 2012. Meðal helstu vandamála Evrópuþjóða er ofveiði og er veiðigeta fiskiflota aðildarríkja mun meiri en aflaheimildir leyfa. Það er því einungis eðlilegt að hafa áhyggjur af því að sótt verði í sjávarauðlindir okkar. Það er einnig eðlilegt að hafa áhyggjur af fjárfestingum erlendra aðila í hérlendum útgerðum. Heimildir ríkja til reglusetninga um löndun og fullvinnslu afla í heimalandi eru mjög takmarkaðar. Bretar gerðu samkomulag við sambandið, eftir að hafa verið aðilar að nokkrum málum er lögð voru fyrir Evrópudómstólinn, sem er fordæmisgefandi er varðar leyfi til reglusetninga á þessu sviði. Samkvæmt því er leyfilegt að gera kröfur um að útgerðir sýni fram á ákveðin efnahagsleg tengsl við ríkið sem úthlutar þeim veiðiheimildum. Viðurkennd voru fjögur skilyrði og nægir að útgerð uppfylli einungis eitt þeirra. Í stað þess að rekja þau öll vil ég nefna að eitt þessara skilyrða er að 50% af áhöfn skipa sé að öllu jöfnu búsett í aðildarríki (þurfa ekki að vera íslenskir ríkisborgarar). Það ætti því að vera öllum ljóst sem kynnt hafa sér þessi málefni að ekki þarf að landa né fullvinna afla hérlendis.  

"6. Sameiginleg fiskveiðistefna ESB rústar sjávarútveginn. Hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins (CFP) er undantekning frá þeirri grundvallarreglu, að sérhver aðildarþjóð ráði ein yfir auðlindum sínum. Ástæðan er auðskilin. Öldum saman hafa margar þjóðir stundað veiðar úr sameiginlegum fiskistofnum á sameiginlegu hafsvæði, t.d. á Norðursjónum. Til þess að gæta jafnræðis var reglusetning um nýtingu sameiginlegra fiskistofna færð til Evrópusambandsins. Aðildarríkin verða síðan að semja sín í milli um framkvæmd stefnunnar og nýtingu auðlindarinnar. Þetta fyrirkomulag helgast af þessum sérstöku aðstæðum. Það gegnir allt öðru máli um íslensku fiskveiðilögsöguna. Hún er algerlega aðskilin frá hinu sameiginlega hafsvæði ríkjanna við Norður­sjó. Helstu nytjastofnar okkar eru allir staðbundnir. Að því er varðar flökkustofna, þá semjum við nú við Evrópusambandið og aðrar nágrannaþjóðir um nýtingu þeirra. Breytingin verður sú, að eftir aðild semjum við innan Evrópusambandsins um okkar hlut. Í ljósi þessara aðstæðna munu Íslendingar setja fram þá samningskröfu, að íslenska lögsagan verði sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði. Rökin fyrir þessari kröfu eru, að hér sé um brýnustu þjóðar­hagsmuni að ræða. Fyrir þessu eru fjölmörg fordæmi. Allar aðildarþjóðir hafa fengið viðurkenningu á brýnustu þjóðarhagsmunum. Það sem auðveldar okkur að ná þessari samningsniðurstöðu er, að það er ekkert frá Evrópusambandinu eða aðildarþjóðum þess tekið og við gerum engar kröfur um að taka neitt frá þeim, sem þær hafa átt. Þess vegna ætti ekki að vera torvelt að ná fram slíkri samnings­niðurstöðu, sem væri viðunandi fyrir báða aðila."

Þessu hefur verið svarað í lið 3 þar sem bent er á að þrátt fyrir góðan málflutning og röksemdafærslur af okkar hálfu hefur ekki verið vilji til sérsamninga fyrir Ísland. Það ætti því að vera öllum augljóst að þetta er torvelt.

"7. Landbúnaðurinn mun leggjast af. Þetta er dæmigerður hræðslu­áróður. Samningsniðurstaðan varðandi íslenskan landbúnað mun sennilega taka mið af sérlausn Finna og Svía um þeirra heimskauta­landbúnað. Sú lausn felur m.a. í sér, að okkur verður í sjálfsvald sett að styrkja eigin landbúnað umfram þá styrki, sem fást úr sameiginlegum sjóðum ESB. En starfs­umhverfi landbúnaðarins hefur verið að breytast og mun halda áfram að breytast. Búum fækkar um leið og þau stækka, vegna hagræðingar. Það er framhald af ríkjandi þróun. Aukið viðskiptafrelsi með landbúnaðarafurðir mun hvort eð er verða staðfest, þegar yfirstandandi samningalotu alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) lýkur.
Starfsskilyrði landbúnaðarins munu því breytast, hvort heldur við göngum í ESB eða ekki. Styrkir frá ESB eru ekki framleiðslutengdir heldur beinast frekar að búsetu, byggðastefnu og innviðum á landsbyggðinni. Innlend landbúnaðarframleiðsla mun því áreiðanlega taka breytingum, hvort heldur við göngum í ESB eða ekki. En í þeim breytingum felast líka tækifæri fyrir sumar greinar landbúnaðarins. Þar getum við mikið lært af Svíum, en sænsk landbúnaðarframleiðsla hefur styrkt stöðu sína eftir aðild á innri markaðnum." 
 

Landbúnaður mun ekki leggjast af og áhyggjur þess eðlis tel ég hafa verið óþarfar. Eins og áður hefur verið bent á mun Ísland allt líklega flokkast sem harðbýlt land norðan 62. breiddargráðu og því heimildir til styrkveitinga rýmri m.v. þær reglur sem eru í gildi í dag. Slíkar styrkveitingar eru hins vegar fjármagnaðar af skattgreiðendum. Með ESB aðild munu verndartollar falla niður af innfluttum landbúnaðarafurðum og með aukinni samkeppni hér á markaðnum má búast við að auka þurfi styrki til íslensks landbúnaðar ef hann á að standast þá samkeppni.  

"8. Evrópusambandið er ólýðræðislegt. Engin önnur fjölþjóðasamtök hafa hjálpað jafnmörgum þjóðum til að losna frá arfleifð einræðis og kúgunar og að byggja upp stofnanir og starfshætti lýðræðis eins og Evrópusambandið. Þetta á við um Spán, Portúgal og Grikkland. Þetta á við um þjóðir Mið- og Austur-Evrópu. Þetta á við um vinaþjóðir okkar við Eystrasalt. Þetta á við um hinar nýfrjálsu þjóðir á Balkan­skaga. Fyrir utan átökin á Balkan­skaga, þar sem Evrópusambandið gætir nú friðarins, hefur þessi lýðræðisþróun átt sér stað án valdbeitingar. Evrópusambandið er því sterkasta friðar- og lýðræðisafl í okkar heimshluta. Þar að auki er Evrópusambandið öðrum fyrirmynd um það, hvernig efnahag og lífskjörum hinna fátækari þjóða hefur verið lyft upp á stig hinna, sem betur hefur búnast.

Evrópusambandið er því öflugt jöfnunarafl að því er varðar efnahags- og lífskjaraþróun íbúanna. Innan Evrópusambandsins er að finna rótgrónustu lýðræðisþjóðir heims. Eftir hrun horfast Íslendingar í augu við veikleika og vankanta okkar lýðræðisskipunar. Við ættum að láta ógert að kveða upp sleggjudóma um vanþroska lýðræði annarra. Við höfum ekki efni á því."
 

Við Íslendingar búum ekki við arfleifð einræðis og kúgunar líkt og þjóðir Mið- og Austur Evrópu sem vísað er til og þurfum því ekki aðstoð Evrópusambandsins til að koma á lýðræði. Varðandi það hvort Evrópusambandið sé í raun lýðræðislegt í eðli sínu er nærtækast að benda á nýútkomna skýrslu sem unnin var af sambandinu. Þar kemur fram að þær 10 þjóðir í Austur Evrópu sem gengu í sambandið 2004 telja sig fá litla sem enga áheyrn í Brussel og hafa gefist upp á að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir sem þar eru teknar. Er þetta merki um lýðræði?    

"9. Við erum svo smá að við höfum engin áhrif innan ESB. Það eru vandfundin þau fjölþjóðasamtök í veröldinni, þar sem smáþjóðir hafa jafnmikil áhrif og innan Evrópusambandsins. Af 27 aðildar­þjóðum ESB eru 21 skv. skilgreiningu smáþjóðir. Forystumönnum þessara þjóða ber saman um að smáþjóðirnar hafi styrkt stöðu sína með aðild að ESB í samanburði við að standa einar utan garðs. Þær þjóðir kallast stórþjóðir, sem geta farið sínu fram, án þess að taka tillit til annarra.

Stórþjóðir geta haft sitt fram í krafti efnahagslegra yfirburða eða hervalds. Það eru hinar stærri þjóðir innan Evrópusambandsins (eins og t.d. Þjóðverjar, Frakkar og Bretar) sem með aðild sinni hafa afsalað sér valdi og skuldbundið sig til að leysa ágreiningsmál innan bandalagsins með samningum, á grundvelli laga og réttar. Friðsamleg lausn deilumála er brýnasta hagsmunamál smáþjóða. Sú aðferðafræði Evrópusambandsins að leysa ágreiningsmál með samningum er því smáþjóðum í hag.

Innan Evrópusambandsins gætir vaxandi tilhneigingar til svæðisbundins samstarfs. Innan Evrópusambandsins munu Íslendingar skipa sér í sveit með öðrum Norður­landaþjóðum og Eystrasaltsþjóðum í svæðisbundnu samstarfi innan ESB. Með því móti munum við styrkja stöðu okkar í samanburði við það að standa einir utan garðs."
 

Já það er rétt! Smáþjóðir hafa í raun lítil áhrif innan sambandsins, eins og ég hef bent á hér áður. Jón Baldvin vísar í að innan sambandsins sé tilhneiging til svæðisbundins samstarfs og að með samstarfi við aðrar Norðurlandaþjóðir og Eystrasaltslönd gætum við styrkt stöðu okkar. Það er vissulega rétt en þrátt fyrir gott samstarf við þessar þjóðir er nokkuð víst að hagsmunir okkar munu ekki alltaf fara saman. En ef við gefum okkur að svo verði og að þessar þjóðir (bæði Norðurlöndin í ESB og Eystrasaltslöndin) muni ávallt styðja hvora aðra er staðan þessi. Atkvæðavægi allra þessara þjóða samanlagt er u.þ.b. 10% í Evrópuþinginu og 12% í ráðherraráði ESB.  Með öðrum orðum samstaða þessara þjóða mun ekki duga til að fella ákvarðanir er varða okkar hagsmuni né koma okkar málefnum í gegn. Ég vil einnig minna aftur á kvartanir þeirra 10 þjóða sem gengu í sambandið 2004 (sem allar teljast smáþjóðir samkvæmt skilgreiningu Jóns) um að EKKI hafi verið tekið tillit til málefna þeirra. Jón vísar hér í að forystumönnum þeirra 21. smáþjóða innan ESB (sem eru allar aðrar þjóðir en Bretland, Frakkland, Ítalía, Pólland, Spánn og Þýskaland ... og allar nema ein MUN stærri en Ísland sem gerir þetta villandi) beri saman um að þær hafi styrkt stöðu sína með aðild að ESB. Fyrir þessu má í flestum tilfellum færa rök. Meginástæða sterkari stöðu er hins vegar fólgin í aðild að hinum innri markaði ESB sem við Íslendingar höfum nú þegar í gegn um EES samninginn. Á hinn bóginn hafa aðrir þættir tengdir aðild valdið sumum þjóðum vandamálum og þá meðal annars upptaka Evru. Nærtækast er að nefna vanda Slóvakíu eftir að Moodys lækkaði lánshæfimat vegna upptöku evru þann 1. Janúar s.l  Þessi lækkun olli hækkun vaxta.  Ástæðan er einföld.  Við upptöku evru og missi á peningamálastjórn missti Slóvakía mikilvægt stjórntæki til að bregðast við áföllum í efnahagslífinu og er því metin sem áhættusamari að fjárfesta í.. Í auknum mæli þurfa Evrulöndin að reiða sig á að geta lækkað raunlaun sem viðbragð við áföllum og á eftir að reyna á hvort slíkt sé raunhæft.  Ef ekki tekst að lækka laun þegar áföll verða mun minni sveigjanleiki koma fram í auknu atvinnuleysi.  Nýlega lýsti einnig finnski viðskiptaráðherrann því yfir að upptaka Evru hafi verið mistök fyrir Finnland. Finnland er eina Norðurlandaþjóðin sem tekið hefur upp evru.

Ég get ekki betur séð en að Jón sé einnig í þessum kafla að benda á að stórþjóðir sem gátu áður í krafti efnahagslegra yfirburða eða hervalds fengið sínu framgengt (Þjóðverjar, Frakkar og Bretar) hafi afsalað sér því valdi og skuldbundið sig til að leysa ágreiningsmál á grundvelli laga og friðar sem sé smáþjóðum í hag. Það er gott og blessað og á væntanlega að þýða að með aðild séum við að koma í veg fyrir áhlaup þessara þjóða. Ég vil hins vegar leyfa mér að draga í efa að þetta samkomulag standi þegar/ef þessar þjóðir standa frammi fyrir því hvort hugsa eigi um eigin hagsmuni eða hagsmuni heildarinnar. Nærtækast er kannski að benda á „áhlaup“ Breta með setningu hryðjuverkalaga og engan vilja þeirra til að leysa Icesave fyrir dómsstólum. Ekki beinlínis verið að virða þá skuldbindingu að leysa ágreiningsmál og grundvelli laga og friðar!! Haldið þið að það hefði breytt einhverju ef Ísland hefði verið aðili að ESB?   

"10. Það eru allir vondir við okkur í ESB, sbr. reynsluna af Bretum og Icesave. Þetta er misskilningur. Fórnarlömbin í Icesave-málinu voru breskir og hollenskir sparifjár­eigendur og á endanum íslenskir skattgreiðendur. Skúrkarnir voru eigendur og forráðamenn Landsbankans, sem buðu sparifjáreigendum í þessum löndum hæstu vexti til þess að fá þá til að trúa sér fyrir sparifé sínu, til þess að bjarga sjálfum sér úr lausafjárkreppu við endurfjármögnun eigin skulda.

Að því er varðar Holland, þá stungu þeir af, án þess svo mikið sem þakka fyrir sig. Íslensk yfirvöld vissu frá upphafi, að útibú íslenskra banka alls staðar á EES-svæðinu, voru undir íslenskum bankaleyfum, undir íslensku eftir­liti og undir íslenskri sparifjártryggingu lögum samkvæmt. Það vorum við sem brugðumst. Þetta réttlætir að sjálfsögðu ekki hefndar­ráðstafanir Breta með því að beita hryðjuverkalögum. En af einhverjum ástæðum hafa íslensk stjórnvöld ekki treyst sér til að höfða mál gegn Bretum til að fá því hnekkt. Þau skulda okkur skýringu á því.

Sannleikurinn er sá, að Íslendingar hafa notið góðs af samstarfi við grannþjóðir. Við höfum notið góðs af Norðurlandasamstarfinu. Við nutum góðs af Marshall-aðstoðinni án þess að fullnægja settum skilyrðum. Við nutum góðs af varnarsamstarfinu við Bandaríkjamenn – græddum m.a.s. á því, á meðan aðrar þjóðir færðu fórnir í þágu landvarna. Við höfum notið góðs af EES-samningnum, sem með einu pennastriki veitti okkur aðgang á jafnréttisgrundvelli að stærsta fríverslunarsvæði heims. Og við höfum notið góðs af Evrópusamstarfinu á mörgum sviðum, ekki síst að því er varðar vísindi og rannsóknir, menntun og menningu. Við erum vegna uppruna okkar, sögu og menningar Evrópuþjóð og eigum heima í samstarfi evrópskra lýðræðisríkja."
 

Það er orðum ofaukið að við Íslendingar höfum reynt að halda því fram að allir í ESB séu vondir við okkur. Ekki skal ég „taka upp hanskann“ fyrir forsvarsmenn Landsbankans né gagnrýna að þeir séu kallaðir skúrkar eins og hér er gert. En varðandi þá fullyrðingu að við (Íslendingar) höfum brugðist er rétt að benda á eftirfarandi. Ekki verður betur séð en að löggjöf og reglugerðir Evrópusambandsins um fjármálamarkaði hafi fyrst of fremst brugðist. Það er rétt að  hérlend yfirvöld vissu að erlend útibú íslenskra banka voru undir íslenskum bankaleyfum, íslensku eftirliti og íslenskri sparifjártryggingu. Allt þetta „íslenska“ tók þó mið af löggjöf og reglugerðum um fjármálastarfsemi frá ESB og eru þeir því höfundar reglna um þessa starfsemi. Rétt er einnig að benda á að íslensk sparifjártrygging þýðir ekki að íslenska ríkið sé eða hafi einhvern tímann verið ábyrgt fyrir innistæðum. Tryggingarsjóðir innistæðna í hverju landi eru samkvæmt ESB löggjöf sjálfstæðir og ekki í ríkisábyrgð enda fjármagnaðir af bankastofnunum. Krafa ESB um að íslenska ríkið samþykki óviðráðanlegar skuldir sem því ber ekki lagaleg skylda til að gangast við má kannski túlka sem „vonsku“? Nú verður hver að dæma fyrir sig. Þeir hafa í.þ.m. ekki verið reiðubúnir til að láta á lagaleg rök reyna með málaferlum af ótta við að okkar málflutningur muni rýra trúverðugleika Evrópska fjármálakerfisins í heild.  

"11. Evrópusambandið er sósíalískt ríkisforsjárbákn og/eða valdastofnun heimskapítalismans í anda frjálshyggju. Bíðum hæg. Hvort tveggja getur ekki verið satt, enda er sannleikurinn sá, að hvorugt er sannleikanum samkvæmt. Hægri öfgamenn í Bandaríkjunum fyrirlíta Evrópusambandið á þeirri forsendu að það sé hálfsósíalískt velferðarapparat, sem hafi misst alla lyst á að standa við bakið á Bandaríkjamönnum í ofbeldisverkum þeirra vítt og breitt um heiminn.

Það má til sanns vegar færa að þjóðfélagsgerð flestra Evrópuþjóða dregur í vaxandi mæli dám af hinu norræna velferðarríki miklu fremur en af óbeisluðum kapítalisma í amerískum dúr. Evrópuþjóðir verja takmörkuðum fjármunum til vígbúnaðar og stefna ekki að heimsyfirráðum. Evrópusambandið er friðarafl í okkar heimshluta. Helmingurinn af allri þróunaraðstoð við fátækar þjóðir kemur frá Evrópusambandinu og Evrópusambandið er frumkvöðull um umhverfisvernd á heimsvísu.

Þrátt fyrir þetta vilja ýmsir vinstrimenn telja sér trú um, að Evrópusambandið sé valdastofnun í þjónustu fjármagns og í anda frjálshyggju. Þeir sem því trúa ættu að gera samanburð á velferðar­þjónustu og félagslegum réttindum almennings í ríkjum Evrópu í samanburði við hið hráslagalega og mannfjandsamlega auðræði í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sá samanburður mun leiða hið sanna í ljós.

Það ætti líka að auðvelda vinstrimönnum að kveða upp úr um það, hvort heldur þeir vilja að Ísland framtíðarinnar verði skrípamynd af amerískum kapítalisma eða virkur þátttakandi á jafnréttisgrundvelli í samstarfi hinna norrænu velferðarríkja innan vébanda Evrópusambandsins." 
 

Læt kyrrt liggja að gagnrýna þennan lið að öðru leyti en að benda á að Ísland er nú þegar virkur þátttakandi í samstarfi norrænna velferðarríkja og sú staðreynd að við erum utan ESB þýðir ekki að Ísland sé skrípamynd af amerískum kapítalisma. Í nýlegu viðtali við fyrrum utanríkisráðherra Þýskalands, sem hefur verið einn dyggasti stuðningsmaður evrunnar, viðurkenndi hann að nú fyrst teldi hann raunverulega hættu á að Evrópusamstarfið gæti klikkað og að auka þyrfti miðstýringu til að koma í veg fyrir það. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort Evrópusamstarfið muni þróast í átt að frekari miðstýringu á næstu árum. 

Ein Volk, Ein Reich, Ein Fuhrer?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband