Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Auðæfi og gildismat

Eftir hið margumrædda bankahrun haustið 2008 var mikið fjallað um hvernig lífsgildi og áherslur þjóðarinnar hefðu breyst. Að fólk hefði, eftir tímabil mikillar efnishyggju, farið í gegnum ákveðna endurskoðun á gildum og uppgötvað að peningar væru ekki það mikilvægasta í lífinu. Sumir jafnvel þökkuðu þeim sem höfðu átt þátt í bankahruninu fyrir að hafa valdið því að þeir endurmátu áherslur í lífinu og fóru að leggja meiri rækt við mun verðmætari "hluti" en peninga, eins og fjölskyldu og vini.

Mér hefur verið hugsað til þessa í tengslum við umræður um launakjör heilbrigðisstarfsmanna. Þjóðin hefur með orðum sammælst um að mestu auðæfin felist ekki í peningum en þeim orðum hefur ef til vill ekki verið nógu vel fylgt eftir í verki með auknum áherslum á verðmætari "hluti".

Af hverju er t.d. svo mikill munur á launakjörum heilbrigðisstarfsmanna og bankastarfsmanna?

Það hefur talist góð og gild regla að ákvarða sanngjörn laun fyrir störf út frá mati á verðmætasköpun og ábyrgð sem starfinu fylgir. Teljum við virkilega meiri verðmæti fólgin í peningum en heilsu ... og meiri ábyrgð felast í að "sýsla" með peningana okkar en heilsuna? Er ekki góð heilsa grundvöllur þess að við getum notið þeirra verðmæta sem við erum flest sammála um að séu mikilvægari en peningar sem eru meðal annars samverustundir með fjölskyldu og vinum?

Orð eru til einskis nema þeim sé fylgt eftir með viðeigandi verknaði.


Mesti hræðsluáróðurinn í Icesave málinu frá upphafi!

Þeir sem eru fylgjandi Icesave samningum, samninganefndarmenn og aðrir, hafa látið í veðri vaka að versta mögulega niðurstaða úr dómsmáli gæti orðið sú að Íslendingar yrðu dæmdir til að ábyrgjast innistæður Breta og Hollendinga að fullu vegna jafnræðisreglunnar.

Í því samhengi hafa menn hrætt fólk með því að það myndi þýða mörg hundruð milljarða hærri greiðslu en núverandi samningar fela í sér. Þetta er svo mikil fjarstæða og einhver sá mesti hræðsluáróður sem finna má í öllu Icesave málinu og mun ég hér útskýra það nánar.

Í fyrsta lagi er þessi niðurstaða dómsmáls mjög ólíkleg. ESA hefur nú þegar staðfest með áliti sínu frá 15. desember 2010 að nauðsynlegt hafi verið fyrir íslensk stjórnvöld að tryggja innistæður hér umfram lögbundna innistæðutrygginu til að tryggja öryggi almennings á Íslandi. Með þessu áliti sínu vísar ESA á bug kvörtunum þess eðlis að íslenskum stjórnvöldum hefði nægt að tryggja innistæður hér aðeins í samræmi við það lágmark sem ESB lög kveða á um. Það hefur lítið farið fyrir því að talsmenn samninganna hafi kynnt þetta álit. Þeir hafa lagt meiri áherslu á fyrra álit ESA, sem sent var hálfu ári áður, þar sem fram kemur að um mögulega mismunum hafi verið að ræða. Rétt er að taka skýrt fram að í þessu fyrra áliti, er varðar mismunun, er einungis vísað í að hún felist í því að ekki hafi verið greidd lágmarksinnistæðutryggingin til Breta og Hollendinga, en hvergi minnst á að íslenska ríkinu hafi borið að ábyrgjast innistæður þeirra að fullu.

Í öðru lagi, ef svo ólíklega færi að niðurstaðan yrði sú að íslenska ríkið yrði dæmt til að ábyrgjast allar innistæður, þá myndi fást fullur forgangur í endurheimtur þrotabús Landsbankans. Í stað þess að fá ca 51% af endurheimtum úr þrotabúinu á móti Bretum og Hollendingum, eins og Icesave samningarnir gera ráð fyrir, myndum við fá 100%. Þetta þýðir að í stað þess að fá ca 51% af um 1.175 milljörðum (sem er núverandi mat á þrotabúinu), eða ca 600 milljarða, fengjum við alla 1.175 milljarðana eða tæplega 600 milljarða í viðbót. Fylgjendur samningsins tala um mörg hundruð milljarða auka kostnað við synjun, í tilfelli verstu mögulegu niðurstöðu dómsmáls, en gleyma að segja frá mörg hundruð milljarða endurheimtum sem myndu fást á móti. Þetta útskýrir þann mikla mun sem er á útreikningum mögulegrar niðurstöðu frá nei og já hliðinni. Hvers vegna fylgjendur samningsins kjósa að taka ekki tillit til viðbótar, mörg hundruð milljarða, endurheimtna er alveg augljóst. Það er til þess að valda ótta hjá almenningi við að segja NEI. Þetta er í raun afar einfalt reiknidæmi sem þarf hvorki viðskiptafræðing, hagfræðing eða stærðfræðing til að leysa. Það ætti því að vera einfalt að setja þetta fram á skýran hátt án þess að gleyma svona mikilvægum forsendum!

Svona málflutningur er til skammar og dæmir sig sjálfur!

Ekki ástæða til að óttast jafnræðisregluna!

Flestir eru sammála því að engin ríkisábyrgð sé á innistæðutryggingarsjóði. Þrátt fyrir það óttast fólk tap í dómsmáli og mögulegar afleiðingar þess jafnvel þó líkurnar séu litlar sem engar. Sá ótti er vegna mögulegs brots á jafnræðisreglunni. Að þar sem íslensk stjórnvöld ákváðu að tryggja innistæður að fullu á Íslandi en ekki í erlendum útibúum þá sé mögulegt að byggja dóm á því að um óheimila mismunun hafi verið að ræða sbr. 4. grein EES samningsins.

Fjórða grein EES samningsins bannar mismunun á grundvelli þjóðernis (e. nationality). Um slíkt var ekki að ræða. Innistæður allra, bæði íslendinga og útlendinga, í íslenskum útibúum voru tryggðar. Hinsvegar voru innistæður Íslendinga í útibúum í Bretlandi og Hollandi ekki tryggðar. Því er ekki um mismunun á grundvelli þjóðernis að ræða.

Lög ESB gilda ekki á Íslandi, nema þau sem innleidd eru í EES samninginn eða tengjast öðru samstarfi við ESB. Reglur ESB um mismunun hljóta hinsvegar að verða lagðar til grundvallar við mat á mismunun. Það eru þrjú meginskilyrði sem þurfa að vera til staðar til að réttlæta mismunun.

1) Ground of general interest – can be justified only if motivated by public policy, public security or puplic health. Mismunun þarf að hafa verið nauðsynleg til að tryggja öryggi og velferð almennings. Það átti við á Íslandi sbr. álit ESA. Þar segir m.a. að ísl. stjórnvöld hafi haft fullan rétt til inngripa þar sem öryggi og velferð almennings hafi verið í húfi. Ef ekki hefði verið gripið til aðgerða hefðu íslensk fyrirtæki t.d. ekki getað greitt út laun og almenningur því ekki getað keypt nauðsynjar eins og mat, lyf ofl.

2) Principle of subsidiarity – the pursued objective cannot be sufficiently achieved by other means, only by adobting a discriminative measures. Aðrar leiðir, sem ekki fólu í sér mismunun, til að tryggja að markmiðum yrði náð voru ekki færar. Þrátt fyrir að ísl. stjórnvöld hefðu viljað tryggja innistæður breta og hollendinga þá var það ekki mögulegt. Í áliti ESA kemur t.d. fram að það hefði rýrt trúverðugleika aðgerðanna ef ríkið hefði tekið á sig slíka skuldbindingu sem það gat augljóslega ekki staðið undir en í áliti ESA segir: „The success of the emergency measures depended largely on the credibility of the action taken. Measures taken to back up the Icelandic banks as a whole would probably have lacked the necessary credibility.“

 

3) Principle of proportionality – the adopted measure shall not go beyond what is necessary to achieve the pursued objective. Ekki var gengið lengra en nauðsyn krafði til að ná markmiðum.   Ef innistæður hefðu eingöngu notið lágmarkstryggingar þá hefðu fyrirtæki ekki getað greitt út laun en eitt af markmiðunum var einmitt að tryggja að hægt yrði að greiða almenningi laun svo hann ætti fyrir nauðsynjum. Innflytjendur matvæla og lyfja hefðu heldur ekki getað fjármagnað innflutning nauðsynja o.s.frv. ESA orðar það svo: „Almost every family and business in Iceland is said to have been a customer, holding debit and savings accounts with these banks. The Icelandic authorities claim that deposits with banks are not just savings; the current accounts are used by the bank's customers for their regular financial transactions. Limits in accessing such accounts would have instantly risked causing a full run on the banks with consequent serious risks for public security. Businesses could not have used funds to pay for their resources and to pay wages to employees; retail suppliers could not have imported necessities for the public, drugs and food etc; lawyers' trust accounts and other similar forms of deposits would have been non-operable with dire consequences. The general public would not have been able to access money deposited at the banks, e.g. proceeds from sales of real-estate, to finance the purchase of a new home. Money could not have been withdrawn to honour large payment obligations to banks and other institutions. This would have increased the already existing risk of systemic financial collapse.

Ennfremur kemur þetta fram í áliti ESA: „The Authority cannot agree with the complainants' view that, the Icelandic authorities could and should have relied on the Icelandic deposit guarantee scheme and that the Deposit Guarantee Directive shows that on 7 October 2008 any guarantee of depositors in excess of EUR 20,000 must have been unnecessary.“

Þ.e.a.s. ESA lýsir því yfir að þeir geti ekki verið sammála því að trygging innistæðna umfram lágmarksinnistæðutryggingu hafi ekki verið nauðsynleg.

Óttast einhver að hafa brotið jafnræðisregluna?


Skýrt brot á stjórnarskrá - framsal dómsvalds

Miklar umræður hafa um það verið bæði á Alþingi og í fjölmiðlum hvort samþykkt Icesave samninganna sé mögulega brot á stjórnarskrá Íslands. Ýmis atriði hafa þar verið nefnd og er ekki ætlun mín að tíunda þau öll hér heldur benda á aðeins eitt athyglisvert atriði sem stjórnarandstaðan ræddi nýlega á Alþingi. Samkvæmt stjórnarskrá er ekki heimilt að framselja dómsvald, sem er hluti af fullveldi okkar. Með fyrirvörum sem samþykktir voru á Alþingi í ágúst s.l. var tryggt að íslensk lög yrðu höfð til hliðsjónar við mat á því hvort íslenski tryggingarsjóðurinn eigi forgangsrétt í eignir Landsbankans á móti greiðslu lágmarkstryggingarverndar, 20.887 evrum. Landsbankinn var jú íslenskt félag og um hann gilda því íslensk lög. Upphaflegu samningarnir fela í sér jafnan rétt íslenska, breska og hollenska ríkisins hvað þetta varðar.

Þær breytingar á áður samþykktum fyrirvörum sem ríkistjórnin vill nú samþykkja fela í sér að torsótt gæti orðið að fá þessar forgangskröfur viðurkenndar. Þar kveður á um að forgangur samkvæmt íslenskum lögum verði eingöngu viðurkenndur að því gefnu að niðurstaða íslenskra dómsstóla verði í samræmi við álit EFTA dómstólsins. Hvað þýðir þetta? Jú, einmitt það að dómsvaldið er ekki lengur í höndum íslenskra dómsstóla heldur EFTA! Ekki verður annað séð en að um sé að ræða beint framsal dómsvalds og hlýtur þetta því að teljast skýrt brot á stjórnarskrá! 

Í samningunum sjálfum er vissulega aðeins talað um ráðgefandi álit en með fyrirliggjandi viðaukabreytingum eru sett skilyrði! Það hlýtur hver maður að sjá að ekki er lengur um ráðgefandi álit að ræða! Vitleysan í þessu máli er endalaus og er þetta aðeins eitt dæmi af mörgum um hvernig farið er í kringum hlutina.

Í tilraun sinni til að réttlæta þetta bendir ríkisstjórnin svo á að hér sé um sambærilegan hlut að ræða og í ákvæði EES samningsins sem við erum nú þegar aðili að. Það er alrangt! EES samningurinn felur í sér heimild EFTA lands til að leita álits EFTA dómstólsins er varðar ágreiningsefni er lúta að samningnum. Engin skylda er sett á þjóðir hvað þetta varðar og er álit dómstólsins aðeins ráðgefandi. Við undirbúning viðræðna vegna aðildar EFTA ríkjanna að EES samningnum var um það rætt hvort álit dómstólsins ætti að vera bindandi. Sú umræða leiddi í ljós að slíkt myndi líklega brjóta í bága við stjórnarskrár EFTA ríkjanna og því ákveðið að það yrði aðeins ráðgefandi. Það er því augljóst að röksemdafærslur ríkisstjórnarinnar standast ekki nánari skoðun í þessu máli fremur en mörgum öðrum! 

 


Nokkrar staðreyndir um Icesave samningana

1.       Í samningi við Breta samþykkjum við að um hann gildi bresk lög, þ.e. að dæmt verði í ágreiningsmálum er upp geta komið fyrir breskum dómstólum. Ríkisstjórn hefur ekki enn dottið í hug að fá sérfræðing í breskum lögum til að lesa yfir og túlka þessa samninga! Tel ég það í hæsta máta mjög óeðlilegt sér í lagi þar sem bresk lög eru að mörgu leiti mjög sérstök!

2.       Með samþykkt laga á Alþingi í ágúst s.l. þar sem fyrirvarar við samningana voru samþykktir er skýrt kveðið á um að ríkisstjórn sé falið að kynna þá með þeim hætti að ríkisábyrgð geti aðeins tekið gildi ef þeir verða samþykktir. Að öðrum kosti þurfi að hefja nýjar samningaviðræður. Ríkisstjórn hafði ekki heimild til að semja um breytingar á þessum fyrirvörum!        

3.       Ríkisstjórnin hefur samþykkt að greiðslur á lánum fari fram í evrum og pundum þegar við höfum lagalega heimild til þess að þær verði framkvæmdar í íslenskum krónum. Þar með er ríkisstjórn Íslands að samþykkja óþarfa gengisáhættu. Margir hafa bent á að betra sé að láta dæma okkur til greiðslu, ef svo skyldi fara, til að losna undan þessari samþykkt á greiðslum í erlendri mynt.  

4.       Með samningunum samþykkjum við að afsala okkur rétti til að krefjast skaðabóta vegna hryðjuverkalaganna. Þetta var krafa Breta, sem við og samþykkjum í fyrirliggjandi samningum.  

5.       Í samningunum kemur fram að það sé sameiginlegur skilningur aðila að vernda skuli auðlindir. Sameiginlegur skilningur þeirra er undirrituðu samningana er EKKI trygging fyrir því að ekki verði gengið á auðlindir okkar. Dæmt verður í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma fyrir breskum dómstólum og er ómögulegt að segja til um hverju sú niðurstaða myndi skila.    

6.       Það er samkomulag um að aðilar skuli setjast niður í góðri sátt til að ræða hvaða áhrif það hefur á lánasamningana ef dómstólar komast að annarri niðurstöðu er varðar ríkisábyrgð. Við erum algjörlega bundin því hvað Bretar og Hollendingar vilja samþykkja ef slík staða kemur upp þar sem samningurinn sjálfur kveður á um takmarkalausa ríkisábyrgð. Um túlkun samningsins við Breta gilda bresk lög sem leggja m.a. megináherslu á að samningar skuli túlkaðir samkvæmt orðanna hljóðan. Þ.e. samningurinn sjálfur gildir fyrst og fremst og síður eða jafnvel ekki tekið tillit til utanaðkomandi álitaefna.  

7.       Með fyrirliggjandi samningum og þeim breytingum á áður samþykktum fyrirvörum sem nú liggja fyrir er ekki tekið tillit til svokallaðra Brussel viðmiða sem samþykkt voru af Bretum og Hollendingum í nóvember s.l. Brussel viðmiðin voru forsenda þess að íslenska ríkið myndi samþykkja ríkisábyrgð. Með þeim samþykktu aðilar að taka fullt tillit til þeirra erfiðu aðstæðna sem Ísland stendur frammi fyrir við gerð samninga um þessar skuldbindingar. Með því að bjóða okkur tæplega fjórum sinnum hærri vexti en innistæðutryggingarsjóði Breta og samþykkja ekki að heildargreiðslum sé hagað í samræmi við getu hagkerfisins eru þessi samþykktu viðmið látin lönd og leið.  

 

Er einhver þeirrar skoðunar að ríkisstjórn Íslands hafi tekist vel til við að gæta hagsmuna okkar í þessu máli? Dæmi hver fyrir sig!

Minni enn og aftur á áskorun Indefence til forseta Íslands!


Enn um Icesave og ESB

Evrópusambandið skorar á Alþingi að staðfesta Icesave samkomulagið við Breta og Hollendinga. Að öðrum kosti sé aðild Íslands í hættu. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg fréttastofunnar.

Er ekki örugglega öllum orðið ljóst að til að ganga í ESB þurfum við að samþykkja Icesave? Sem um leið útskýrir enn og aftur linkind Samfylkingarmanna í þessari baráttu fyrir okkar hönd og óskiljanlegan vilja þeirra til að samþykkja óviðunandi samninga sem líkur eru á að við getum ekki staðið við. Nú liggur fyrir breytingafrumvarp þar sem mikilvægustu fyrirvararnir sem samþykktir voru á Alþingi í ágúst s.l.  eru nær að engu gerðir. Þessir fyrirvarar áttu að tryggja efnahagslegt skjól og vernda hagsmuni okkar með því m.a. að tryggja að greiðslur yrðu ekki umfram það sem hagkerfi okkar ræður við. Þrátt fyrir að okkur takist að skilja áherslu Samfylkingarinnar á að við göngum frá samningum um Icesave, til að eiga möguleika á ESB aðild, er alls ekki hægt að skilja vilja þeirra til að samþykkja fyrirliggjandi skilmála. Aðild að ESB er of dýru verði keypt með slíkum fíflaskap! Það er eitt að samþykkja ábyrgð á Icesave en annað að samþykkja ábyrgð með óviðunandi skilmálum.

Er ekki löngu orðið tímabært að við sýnum meiri hörku í þessu máli og snúum vörn í sókn? Nýleg bréfaskrif á milli Gordon Brown og Jóhönnu Sigurðardóttir vegna þessa máls fylltu mann hreinlega reiði og aulahrolli og staðfestu þær grunsemdir sem maður hafði. Þ.e. að aðilar í samskiptum fyrir okkar hönd vegna þessa máls eru algjörlega óhæfir til að verja okkar málstað. Í mínum huga lítur málið þannig út að við erum að veita ríkisábyrgð á lántöku innistæðutryggingarsjóðs, þrátt fyrir að engin lög um innistæðutryggingarsjóði hjá ESB kveði á um slíka skyldu. Miklar efasemdir eru um að okkur beri að veita þessa ábyrgð og hafa ekki verið færð sannfærandi lagaleg rök því til stuðnings, enda neituðu Bretar að úr þessu yrði skorið fyrir dómsstólum. Staðan er því raunverulega sú að við erum að veita ábyrgð án þess að fyrir liggi lagaleg skylda okkar til þess. Það hlýtur því að vera lágmarkskrafa og í hæsta máta eðlileg að skilmálum verði háttað þannig að okkur sé unnt að standa við þá! Það má ekki gleymast að málið varðar ekki eingöngu hagsmuni Íslands heldur er það einnig hagsmunamál fyrir Breta og Hollendinga að við sjáum okkur fært að samþykkja þessa samninga. Það vill gleymast í umræðunni og í samskiptum okkar við þá vegna þessa máls. Ég held að Samfylkingarmenn ættu að hafa þetta betur í huga í stað þess að hneygja sig og beygja eins og Bretum þóknast.

Ég tel eðlilegt að við segjum beint út: Við erum reiðubúin að semja um þessi mál en með þeim skilmálum sem okkur er unnt að standa við. Að öðru leyti ekki!

Það er kannski athyglisvert að benda á að Bretar veittu sínum eigin innistæðutryggingarsjóði lán á 1,5% vöxtum en okkar lánasamningur kveður á um 5,5% vexti! Jafnræðisreglan hvað!? 

Vil minna aftur á undirskriftasöfnun InDefence vegna áskorunar til forseta Íslands. Stöndum vörð um hagsmuni okkar með því að skrá okkur. 

 


mbl.is Skora á Alþingi að samþykkja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun til forseta Íslands

InDefence hópurinn safnar nú undirskriftum vegna áskorunar til forseta Íslands um að synja breytingalögum vegna Icesave og að bera þau undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þeir fyrirvarar sem samþykktir voru á Alþingi í ágúst s.l. áttu að tryggja efnahagslegt skjól fyrir þjóðina. Í nýju frumvarpi eru þeir fyrirvarar sem mestu skipta og áttu að takmarka ríkisábyrgð og verja hagsmuni þjóðarinnar nær að engu gerðir.

Ég hvet ykkur til að taka þátt í að verja hagsmuni okkar allra með því að skrifa undir þessa áskorun!

 


Bresk pólitík?

Án þess að þekkja í smáatriðum hvaða gögn eða upplýsingar liggja til grundvallar lánshæfimats þessara þriggja fyrirtækja get ég ekki annað en velt fyrir mér hvort sú staðreynd að höfuðstöðvar allra þessara fyrirtækja í Evrópu, eru í Bretlandi (London), hafi e-h áhrif á einkunn íslenska ríkisins.

Hin neikvæða umfjöllun sem átt hefur sér stað um efnahagslega stöðu Íslands í fjölmiðlum þar ytra er til þess fallin að fólk álíti stöðuna jafnvel enn verri en hún raunverulega er. Það er í mannlegu eðli að taka sérstaklega eftir upplýsingum sem styðja við þær skoðanir sem þú hefur mótað þér um einhverja hluti og útiloka upplýsingar sem eru í andstöðu við þær. Ég á því auðvelt með að ímynda mér e-h breska sérfræðinga rýnandi í gögn og upplýsingar um Ísland, með neikvæðu hugarfari, og komast að lokum að mjög slæmri niðurstöðu.

Það má einnig velta því fyrir sér hvort um einhverja spillingu sé að ræða í þessum fyrirtækjum, líkt og víða annarsstaðar, og þá hvort um e-h pólitísk áhrif sé að ræða inn í þessi fyrirtæki. Ef um slík pólitísk áhrif er að ræða þá væri þetta ekki í fyrsta skipti sem Bretar beita pólitískum áhrifum sínum til að reyna að knýja fram samþykkt Íslands á Icesave skuldbindingum, langt umfram það sem lög kveða á um. Hefur því ekki verið haldið á lofti að lánshæfimat íslenska ríkisins muni hækka um leið og Icesave skuldbindingarnar eru samþykktar? Stórfelld lækkun á lánshæfimati okkar nú er kannski enn ein leiðin, af hálfu Breta, til að knýja fram samþykktir á þessum samningum?

Ég fæ reyndar ekki séð að lánshæfimat ríkisins geti batnað við að leggja á það stórauknar byrðar líkt og felast í Icesave samningnum, en það er nú sér umfjöllunarefni.
mbl.is Lánshæfismat ríkisins lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þurfum við að standa saman og skrá okkur á www.kjosa.is

Skorum á Ólaf Ragnar að staðfesta ekki lög um ríkisábyrgð á Icesave samningum!

Við verðum að standa vörð um hagsmuni okkar og neita að gangast við ábyrgð á skuldum hlutafélaga sem engin lög kveða á um að almenningi beri að greiða.

Skráum okkur á www.kjosa.is.


mbl.is Semja verði aftur um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukinn fróðleikur um Evrópusambandið gerir fólk andvígt aðild!

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með minnkandi fylgi almennings við aðild Íslands að ESB skv könnunum síðastliðna mánuði.

Í tengslum við nám hjá HR vann ég rannsóknarskýrslu s.l. sumar sem fjallaði um ávinninga og ókosti við aðild Íslands að ESB og hugarfar almennings til aðildar. Vegna skýrslunnar var framkvæmd skoðanakönnun meðal almennings þar sem eitt af meginmarkmiðum var að greina hvað hefði hugsanlega áhrif á hugarfar fólks gagnvart aðild. Þar var m.a. skoðað hvort lítil eða mikil þekking á málefnum ESB og það hvaðan hún kæmi hefði áhrif á viðhorf. Yfir 1000 aðilar, starfsmenn ýmissa fyrirtækja, stofnana og sveitafélaga um allt land tóku þátt í könnuninni og var lögð áhersla á að fá þátttakendur úr sem flestum atvinnugreinum og stéttum þjóðfélagsins, allsstaðar af á landinu, til að fá sem raunhæfasta mynd af hugarfari almennings.

Í kjölfar ýtarlegra greininga á svörum var hægt að draga ákveðnar ályktanir. Í stuttu máli var hæst hlutfall þeirra sem andvígir voru aðild að sambandinu þeir sem höfðu kynnt sér málefnið sérstaklega og hæst hlutfall þeirra sem voru fylgjandi aðild voru þeir sem höfðu mestan fróðleik um málefnið úr fjölmiðlum. Út frá þessu var hægt að draga þær ályktanir að fjölmiðlaumfjöllun um ESB væri einsleit og til þess fallin að gera fólk fylgjandi aðild á meðan "dýpri" þekking á málefninu gerði fólk meira andvígt.

Síðan þessi rannsókn var framkvæmd, fyrir u.þ.b. ári, hefur aukin umfjöllun um Evrópusambandið átt sér stað bæði í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi, um það hvað aðild felur í sér og fólk fræðst mun meira um málefnið.

Það virðist því augljóst að minnkandi fylgi við aðild hafi með aukna þekkingu almennings á málefninu að gera. Fólk er nú í auknum mæli farið að átta sig betur á því hvað aðild hefur raunverulega í för með sér, hvernig ESB starfar og margir skipt um skoðun. Aukinn fróðleikur um ESB olli einnig breyttu hugarfari hjá mér. Þegar ég hóf vinnu við áðurgreinda rannsóknarskýrslu var ég ein af þeim sem var mjög tvístíga varðandi aðild. Í raun hallaðist ég fremur að því að vera fylgjandi aðild þar sem ég eins og flestir hafði mestan fróðleik um málefnið úr fjölmiðlum. Eftir á að hyggja tel ég að jákvætt hugarfar mitt gagnvart aðild hafi orsakast af því að ég taldi okkur ekki eiga annarra kosta völ enda hefur þeim áróðri verið dyggilega haldið á lofti.

Eftir því sem ég kynnti mér evrópusamstarfið betur, sáttmála sambandsins, reglugerðir, ákvarðanatöku og það sem aðild hefur í för með sér varð ég sífellt meira afhuga aðild. Eftir atburði undangenginna mánuða er ég enn sannfærðari um að aðild henti okkur ekki! A.m.k. ekki á þessum tímapunkti við þessar aðstæður. Það má vel vera að síðar komi upp þær aðstæður að við teljum hag okkar betur borgið innan ESB en þær aðstæður eru svo sannarlega ekki núna!

Mér finnst að ríkisstjórnin sé ekki alveg að "dansa í takt" við vilja almennings. Kallar hún sig ekki "ríkisstjórn fólksins"? Hefur hún kannski ekki fylgst með nýlegum skoðanakönnunum eða er hún hætt að hlusta á fólkið?

Ég hef a.m.k. dregið þá ályktun að aukin þekking á Evrópusambandinu og meiri fróðleikur um málefnið geri fólk andvígt aðild. Vandamálið er kannski það að okkar eigin ríkisstjórn hefur ekki lagt sig fram við að fræðast meira um ESB og er því ekki komin með sama hugarfar og meirihluti almennings. Maður situr enda stundum og hárreytir sig þegar þessir spekingar koma fram í viðtölum og fullyrða um hluti er sambandinu tengjast sem eiga sér enga tilhæfu í raunveruleikanum. Fáviskan og vanþekkingin er stundum óþolandi og því miður ná þessir aðilar til einhverra sem kjósa að treysta þeim í blindni!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband